Ferðafélagið Hörgur heimasíða

 
 
 
clockhere

Nafn:

Ferðafélagið Hörgur

Farsími:

6907792 Gestur Hauksson umsjónarmaður Baugasels

Afmælisdagur:

Stofnað 23. júní 1981

Heimilisfang:

Laugaland 601 Akureyri

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

Formanns 5885368 / 8972888

Um:

Vefstjóri heimasíðunnar er: Guðmundur Skúlason sími 8461589

Kennitala:

621295-2769

Bankanúmer:

1187-26-3773

Tenglar

 

Fréttir 2011

    12. nóv. 2011
      emoticon emoticon emoticon 
  Í kvöld var afmæliskvöldvaka Hörgs haldin að Melum. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni voru 30 ár liðin frá stofnun félagsins þann 23. júní sl. Það hefur verið venja hjá félaginu að halda upp á tímamót í sögu þess, með kvöldvökum á Melum. Þessar kvöldvökur hafa alltaf verið vel sóttar og þótt takast ágætlega. Á þeim hefur verið fléttað saman ýmsu efni, bæði til fróðleiks og skemmtunar auk þess sem rifjaðir hafa verið upp atburðir úr sögu félagsins bæði í máli og myndum.
 
  Eins og á fyrri kvöldvökum var í kvöld boðið upp á ýmislegt til skemmtunar:

Bjarni E Guðleifsson formaður Hörgs  Bjarni E Guðleifsson á

Möðruvöllum, formaður Hörgs allt frá stofnun félagsins setti kvöldvökuna og stjórnaði henni. Hann var einnig með myndasýningar þar sem hann rifjaði upp atburði úr sögu félagsins.


Þóra Stefánsdóttir og Eva Margrét Árnadórrir  Þessar blómarósir spiluðu fyrir gesti.
Þetta eru þær: Þóra Stefánsdóttir í Fagraskógi á fiðlu og Eva Margrét Árnadóttir í Stóra Dunhaga á harmoniku.


Guðmundur Skúlason  Guðmundur Skúlason á Staðarbakka, las ljóðin: Mold og Hugmynd eftir Stein Steinarr og Fjallganga eftir Tómas Guðmundsson.
Árni Þórisson  Árni Þórisson frá Auðbrekku söng gamanljóð, þar á meðal eitt eftir Gunnar bróðir sinn, sem sérstaklega var samið fyrir þessa kvöldvöku. 
   


Ingimar Harðarson  Ingimar Harðarson spilaði á harmoniku undir fjöldasöng og einnig þegar marsérað var í lok kvöldvökunnar.Sigvaldi Jónsson  Félagar frá 24x24 Glerárdalshringnum kynntu starfsemi sína og hér er það Sigvaldi Jónsson að kynna hana.Bjarni E og Hilmar Antonsson  Ferðafélaginu Hörg bárust góðar gjafir í tilefni afmælisins, t.d. frá Ferðafélagi Íslands og Ferðafélagi Akureyrar. 
  Á myndinni er Hilmar Antonsson formaður Ferðafélags Akureyrar að afhenda Bjarna gjöfina frá því.
    
  


Marséring  Í lok kvöldvökunnar marséruðu allir kvöldvökugestirnir um húsið á Melum, undir öruggri stjórn Jósavins Arasonar í Arnarnesi og Agnesar dóttur hans og Ingimar lék undir á nikkuna.


Afmælistertan  Þá eru enn ótaldar hinar glæsilegu veitingar sem konur í kirkjukór Möðruvallaklaustursprestakalls önnuðst á frábæran hátt.....


Lilja, Borghildur, Pálína, Ingunn og Kristín .....og hér eru þær þessar elskur, þegar þeim var þakkað fyrir með lófaklappi í lok kvöldvökunnar.
  Þetta eru þær: Lilja Gísladóttir, Borghildur Freysdóttir, Pálína Jóhannesdóttir, Ingunn Aradóttir og Kristín Ólafsdóttir. 
  
  Um 80 manns mættu á kvöldvökuna og þótti hún takast ljómandi vel. Það voru því ánægðir kvöldvökugestir, sem héldu út í tunglskinið laust fyrir miðmættið og fóru til síns heima.
    emoticon emoticon emoticon  Hér má sjá fleiri myndir frá kvöldvökunni.
    GTS

    7. nóv. 2011

    
Kvöldvaka!
 
Ferðafélagið Hörgur, var stofnað í Baugaseli í Barkárdal árið 1981 og á því 30 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni verður haldin afmæliskvöldvaka í félagsheimilinu að Melum í Hörgárdal laugardaginn 12. nóvember og hefst hún klukkan 20,30.
 
Á kvöldvökunni verður fjölbreytilegt efni. Sýnt verður myndband sem gert var á 10 ára afmæli félagsins í Baugaseli árið 1991. Stiklað verður á stóru í sögu ferðafélagsins, menn Glerárdalshringsins munu segja frá sinni starfsemi og auk þess mun talað mál og tónlist verða á boðstólum, svo og kaffiveitingar.
 
Til kvöldvökunnar er öllum félögum Hörgs boðið sérstaklega auk gesta úr nágrannaferðafélögum. Hún er einnig opin öllum sem áhuga hafa á starfsemi félagsins.
    GTS 


    17. okt. 2011

  Í kvöld var haldinn stjórnarfundur í Ferðafélaginu Hörg á Staðarbakka. Aðal tilefni fundarins var að ræða og skipuleggja kvöldvöku, sem félaðið ætlar að standa fyrir að Melum laugardagskvöldið 12. nóv. nk. í tilefni þess að félagið varð 30 ára 23. júní sl.
    GTS


    6. ágúst 2011 

    
Gengið að Skeiðsvatni
Skeiðsvatn er utarlega í einum fremsta þverdalnum sem skerst suður úr Svarfaðardal. Dalurinn tekur nafn af vatninu og nefnist Vatnsdalur. Skeiðsvatn er í um 360 m hæð. Þangað er auðvelt að ganga frá fremsta bæ í Svarfaðardal, Koti, í um 200 m hæð, og er þá komið vestan við vatnið. Er stikuð þægileg gönguleið upp að vatninu, fyrst yfir nokkurt votlendi en síðar eftir þurrum og vel grónum skriðum. Einnig má aka á jeppum frá bænum Skeiði og er þá komið að austurhlið vatnsins.

 

 

 

 

 

 

 

Sex manns mættu til göngunnar, þar af aldurhnigin þýsk hjón, sem höfðu þvælst um Ísland á húsbíl síðan í maí. Þau voru enn að bíða eftir sumrinu. Við gengum að vatninu frá Koti og fylgdum þessari þægilegu leið sem er ágætlega stikuð. Einu vandamálin eru við upphaf gönguleiðarinnar, hálffallnar girðingar og mýrlendi sem þarf að fara yfir. Um miðja leið kemur í ljós á vinstri hönd afar falleg lægð gróin mýragróðri. Fyrr en varir kemur vatnið í ljós og úr því rennur talsvert vatnsfall. Mikil fjallakyrð ríkir þarna og á vatninu synti álftapar með fjóra unga. Vatnsdalur er afar fallegur, en þokuslæður um efstu tinda hindraði að við gætum notið fegurðarinnar til fullnustu. Okkur fannst fremur til ama að sjá að jeppar höfðu keyrt yfir ána og fólk greinilega tjaldað vestan vatnsins og ekki hirt allar eigur sínar. Auk þess höfðu jepparnir ekið yfir ein tvö lækjardrög og sett varanleg merki í mosann. Jeppar ættu bara að halda sig austan árinnar. Það tók okkur innan við klukkutíma að ganga hvora leið. Við fórum síðan og borðuðum okkur södd á Fiskideginum mikla á Dalvík.
Hér má sjá myndir sem BEG tók.
    BEG


    5. ágúst 2011 

    Gengið að Nikurtjörn

 Gangan féll niður vegna úrhellisrigningar.
    BEG

 

    4. ágúst 2011
 
    Gengið að Gloppuvatni í Skíðadal

Á mótum Skíðadals og Kóngsstaðadals er mikil og hömrum girt skál sem nefnd er Gloppa. Gloppan opnast til norðausturs en austan hennar eru Rauðuhnjúkar, að sunnan Krosshólshnjúkur og Gunnarsskálarhnjúkur en að vestan er fallegur og svipmikill Gloppuhnjúkurinn. Gloppuhnjúkur hefur einnig verið nefndur Kóngur og þá talið að Kóngsstaðir séu kenndir við hann.

 

Fjórir mættu til göngunnar og var veður ágætt, norðangola og mátti greina þoku úti í fjarðarminni. Gengið var fyrst upp sunnan við Þverá og skoðaður foss í gljúfrinu sem er mikið. Fossarnir í Þverá mundu líklega njóta sín betur hinum megin ár. Farið var yfir tvær girðingar og stefna tekin beint upp Kóngsstaðahálsinn og stefnt á meginhnjúkinn sem blasir við. Gengið er upp lyngmóa en síðasti spölurinn upp á hnjúkinn er brött grjóthlíð, sem þó er auðvelt að sigrast á. Við fórum upp aðeins vestan í hnjúknum, en einn okkar gekk upp dalinn meðfram Gloppuánni. Það er styttri leið en ekki eins glæsileg. Þegar komið er upp á hnjúkinn blasir við sýn til beggja átta, annars vegar niður í Gloppuna, hins vegar fram Skíðadal. Stórfenglegt. Gengið er síðan fram hrygginn, af einum hnjúk á annan og munu þeir nefnast Rauðuhnjúkar. Sums staðar er nokkuð bratt niður til beggja handa, en vel fært. Þarna uppi rákumst við á ónýta veðurathugunarstöð sem erlendir vísindamenn sem hafa verið við rannsóknir á þessum slóðum hafa líklega komið upp. Framarlega í Rauðhólum fer vatnið að sjást, í aðhaldi af mikilli urðarbungu sem skaflarnir í skálarbotninum hljóta að hafa myndað, Vatnið hefur svo brotið sér leið gegnum urðina, og neðan hennar fangar fagurgrænn dýjamostnn augað. Óvíða á Tröllakaga eru vötn með jafn glæsilegri umgerð og Gloppuvatn. Eftir nestisstopp á urðarbungunni var gengið heim niður með ánni sem myndar fagurt gil neðan við Gloppuna, en Gloppuáin rennur í Þverá. Þægileg ganga er niður móana að Kóngsstöðum. Gangan upp tók 2,5 tíma og 1,5 tíma niður.
Hér má sjá myndir sem BEG tók.
    BEG

 

 
    3. ágúst 2011
 
    
Gengið að Skriðukotsvatni í Svarfaðardal

Lagt var upp frá sjónvarpsmastrinu í Hvarfinu. Alls mættu 16 manns í gönguna, þar af nokkur börn, það yngsta þriggja ára (og var borið á baki). Veður var ágætt, lygnt og sólar naut annað slagið. Styttra hefði verið að ganga upp með Skriðukotsgilinu, en ákveðið var að fara þar niður og því varð úr þessu hring-ganga, en ekki gengin sama leið til baka. Skriðukotsvatn er í 540 metra hæð en gangan hefst í 150 metrum.

 

Skriðukotsvatn er ekki fyrirferðarmikið en kúrir miðja vegu undir fjallshryggnum sem liggur frá Hofsá upp á Hvarfshnjúk. Við gengum skáhallt upp lynggrónar brekkurnar frá sjónvarpsmastrinu. Þegar ofar dró tóku við stórgrýttir hólar, hluti af framhlaupinu mikla sem myndar Hvarfið. Stefna okkar var til norðausturs en við gengum heldur bratt í brekkurnar til austurs þannig að við komum upp á hjallann talsvert sunnan vatnsins. Við gengum því á hjallanum til norðurs uns við komum að þessu litla vatni eða tjörn, með grasi grónum bökkum. Yfir gnæfir Hvarfshryggurinn og ekki sáust neinir lækir renna í það, en lítill lækur fellur úr vatninu og myndar síðan Skriðukotsgil, sem er ágætlega fagurt. Eftir að hafa notið nestis við vatnið gengum við niður hlíðina sunnan gilsins. Leiðin lá að Ytra-Hvarfi, en Jóhann bóndi þar ók bílstjórunum að ökutækjum þeirra og þá leystist gönguhópurinn upp. Sumir litu við í rústum eyðibýlisins Skriðukots sem mun hafa verið í byggð til 1929. Gangan upp tók 2 tíma og 1,5 tíma niður.
Hér má sjá myndir sem BEG tók.
     BEG

 

    11.-22. júlí 2011 

    Sjálfboðaliðar í Baugaseli

Barkárdalur er mikill og langur eyðidalur sem teygir sig vestur úr Hörgárdal inn í miðbik Tröllaskagans. Þar voru fyrrum þrjú býli og fór það sem innst var í dalnum, Baugasel, í eyði árið 1965. Dalurinn er girtur háum fjöllum og sá ekki til sólar í Baugaseli frá 4. október til 8. mars eða í 157 daga. Þar var fallegur torfbær sem Ferðafélagið Hörgur gerði upp sem gönguskála á árunum upp úr 1980. Bærinn hefur síðan látið talsvert á sjá, en er þó vel uppistandandi og getur þjónað hlutverki sínu sem gönguskáli þegar menn eru á leið inn á Tröllaskaga.

 

Nú hafa 12 erlendir sjálfboðaliðar úr samtökunum SEEDS unnið í 10 daga að lagfæringum á bænum í samvinnu við Ferðafélagið Hörg. Hafa þeir Gestur Hauksson og Bjarni E. Guðleifsson stýrt verkinu og má segja að mikið hafi áunnist. Rusl var fjarlægt, bærinn málaður að utan og grafin að hluta upp tóft fjóssins sem var fallið. Kom þá í ljós gamli flórinn sem þarna var falinn undir mold, grjóti og járni úr samanföllnu fjósþakinu. Erlendu sjálfboðaliðarnir voru flestir á þrítugsaldri, duglegir og víluðu ekki fyrir sér að vinna óþrifaverk, og dáðust þeir mikið að íslenskri náttúru.

Hér má sjá myndir sem BEG tók.

 

    19. júlí. Sauðaborgin við Vindheima lagfærð

Ofan við Vindheima á Þelamörk er fallega gerð hringlaga grjóthleðsla með allt að mannhæðarháum veggjum. Mannvirkið hefur verið nefnt Fjárborg, Sauðaborg eða Vindheimaborg. Það hefur staðið ótrúlega vel, en nokkuð grjót hefur þó hrunið úr henni, líklega vegna þess að skepnur hafa nuddað sér við veggina. Sagnir eru um að borgin hafi líka skemmst í Dalvíkurskjálftanum 1934. Árið 2006 fóru nokkrir félagar úr Ferðafélaginu Hörgi til að lagfæra það sem hrunið hafði, en ekki tókst að ljúka verkinu. Ekkert er vitað um aldur eða tilurð mannvirkisins, en sennilega hefur borgin verið notuð sem skjól fyrir sauðfé á vetrarbeit.

 

Þann 19. júlí unnu 12 erlendir sjálfboðaliðar úr samtökunum SEEDS við lagfæringar á Fjárborginni og tókst að ljúka henni. Einnig var endurreist einföld girðing umhverfis borgina til að draga úr skemmdum af völdum búfjár.
Hér má sjá myndir sem BEG tók í dag.
    BEG


    11. júlí 2011

  
Í dag eru liðin 30 ár síðan Ferðafélagið Hörgur efndi til sinnar fyrstu ferðar. Gengið var á Flöguselshnjúk, sem er 1306 m hátt fjall á milli Hörgárdals og Flögudals. Ganga þessi tókst ljómandi vel, 13 manns gengu þá á hnjúkinn í sól og blíðu.
  Í tilefni af 30 ára afmælis félagsins, sem var þann 23 júní sl. var ákveðið að efna aftur til göngu á Flöguselshnjúk og var hún farin í gær. Ferðafélagi Akureyrar og Ferðafélagi Svarfdæla var sérstaklega boðið að taka þátt í göngunni nú, en auk þess var öllum frjálst að taka þátt í henni.
  Þátttaka í göngunni í gær fór fram úr björtustu vonum því það mættu 38 manns og 1 hundur og gengu á Flöguselshnjúk og líkt og fyrir 30 árum gat veðrið ekki verið betra, glampandi sólskin og hlýtt.
  Safnast var saman á Staðarbakka um kl. 9 og ekið þaðan fram á Flöguselshóla þar sem gangan hófst. Komið var aftur í Staðarbakka milli klukkan 17 og 18 um kvöldið. Það voru þreyttir en mjög ánægðir fjallagarpar sem komu til byggða eftir frábæran dag. Gangan upp á fjallinu mun hafa verið nokkuð erfiðari nú en fyrir 30 árum, þar sem mun meiri snjór var þar nú.
  Þess má svo að lokum geta að tveir af þeim sem gengu á hnjúkinn þann 11. júlí 1981 tóku einnig þátt í ferðinni nú, þeir: Bjarni E Guðleifsson á Möðruvöllum og Ívar Ólafsson frá Gerði.
  
Hópurinn við upphaf göngunnar á Flöguselshólum. Fleiri myndir úr göngunni
sem Sarah Painter frá Kanada tók má sjá hér.  
    GTS

    10. júlí 2011 

    Gengið á Flöguselshnjúk í Hörgárdal

Ferð þessi var farin Í tilefni af því að fyrsta  ganga Ferðafélagsins Hörgs
fyrir 30 árum var farin á Flöguselshnjúk. Þá gengu 13 manns á þetta 1303 m háa fjall en nú mættu 38 manns (og einn hundur) til göngunnar. Félagar úr Ferðafélagi Akureyrar og Ferðafélagi Svarfdæla voru sérstaklega velkomnir í þessa afmælisgöngu Ferðafélagsins Hörgs.

 

Menn mættu að Staðarbakka klukkan 9,00 og ekið var á nokkrum jeppum fram Hörgárdal. Lesin var frásögn af göngunni sem farin var fyrir þrjátíu árum, árið 1981. Í þeirri göngu var ekið fram á vegarenda við Háaleiti og farið upp Tvílækjargil. Vegna þess að jeppavegurinn fram dalinn er nú orðinn afar torfarinn var núna einungis ekið fram í ofanverða Flöguselshóla og gengið þaðan lengra fram dalinn. Mun gangan því hafa byrjað í um 400 m hæð. Farið var upp utan við Tvílækjargil og reyndust þar afar torfarnar skriður, allt að því hættulegar. Það skrifast á reikning fararstjórans, Bjarna E. Guðleifssonar, að farið var upp svona brattar skriður, en sem betur fer skaðaðist enginn.

 

Þegar upp var komið blasti við mikil fegurð, enda var veðrið eins og best var á kosið, logn og sólskin. Sýn var stórkostleg til allra átta og reyndu menn að átta sig á fjallatindum í nálægð og fjarlægð. Fyrst var staðnæmst við stóru vörðuna þar sem fjallið er hæst, en síðan var gengið á austurendann en þar var minni varða sem ferðafélagar höfðu hlaðið 1981. Eftir nestishlé var gengið niður Tvílækjarbotna og gátu menn sem betur fer rennt sér mörg hundruð metra niður snjóskafl. Gangan út dalinn að bílunum reyndist mönnum löng, en í heild tók gangan 7 klukkustundir.
Hér má sjá myndir sem BEG tók í ferðinni.
    BEG

    6. júlí 2011

    Svarfaðardalsfjöll
Ganga þessi var í tilefni af útgáfu bókarinnara "Svarfaðardalsfjöll. Gengin vatnaskilin umhverfis Svarfaðardal". Gangan var í samvinnu við Ferðafélag Íslands og Útivist. Hugmyndin var að ganga á fjóra tinda við Skíðadalsbotn (Blástakk, Vörðufell, Stapa og Blekkil), en einungis vannst tími til að ganga á tvo þeirra, Blástakk (1379 m) og Blekkil (1250 m). Menn hittust við Baugasel kl. 10,00. Þangað kom Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands með fjölskyldu og ávarpaði göngumenn og bar Ferðafélagiðu Hörgi kveðjur.

 Níu tóku þátt í göngunni. Veðurblíða ríkti, logn og glaðasólskin og hélst það allan daginn. Gengið var fram Barkárdal og sveigt upp Skarðsárdal utan við Skarðsá. Þegar upp í Skarðsárskarð kom var land að mestu snævi þakið og jók það fremur á þá fegurð sem við blasti. Þegar komið var um Skarðsárskarð yfir í botn Féegsstaðadals var gengið á Blástakk. Var farið upp suðurjaðarinn án mikilla vandkvæða. Uppi blasti við stórkostleg sýn yfir dalbotnana í vestri, enda hefur verið talið að af Blástakki væri einna fegurst útsýni á Tröllaskaga. Síðan var stefnan tekin á Blekkil, fjallið sem gnæfir yfir Gljúfurárjöklinum þegar horft er fram Skíðadal. Gengið var nær alveg á snjó, og kom það mönnum á óvart hve snjóþungt var þarna uppi. Á Blekkli nutu menn sömu veðurblíðunnar, sólar og logns, en þoka var þá komin á láglendi í Skíðadalnum. Síðan var stefnan tekin niður í Féeggstaðadal og var auðfarið niður snævi þakta hlíðina og á snjóbrú yfir Féeggjará yfir á Féhnúðinn. Þegar komið var yfir Féhnúð vandaðist málið því Féeggstaðaáin var afar vatnsmikil. Var annaðhvort um það að ræða að ganga langa leið til baka og komast á snjóbrú eða vaða hana. Var tekinn sá kostur að vaða og tókst svo illa til að þeir þrír fyrstu sem lögðu í ána lentu í vatninu, en gátu bjargast sem betur fer. Síðan var mynduð keðja manna yfir og komust allir yfir, misblautir. Nú var hópurinn kominn niður í þokuna og var takmarkið að finna Féeggstaði. Með GPS-tækninni tókst það og þar beið Pálina á Möðruvöllum með bíl og ók bílaeigendum fram í Baugasel að sækja ökutæki. Þá var tekið að skyggja og hafði gangan tekið um 11 tíma.
Hér má sjá myndir sem BEG tók í ferðinni.
    BEG
Hér er tengill til að skoða fleiri myndir frá ferðinni.    

    23. júní 2011

     Jónsmessuvakan í Baugaseli - Afmælisvaka

Nú eru þrjátíu ár síðan Ferðafélagið Hörgur var stofnað á Jónsmessu 1981 í Baugaseli. Síðan hafa menn komið árlega saman í Baugaseli á Jónsmessu og átt þar skemmtilega kvöldstund saman. Búskapur lagðist af í Baugaseli árið 1965 en Ferðafélagið endurreisti torfbæinn eftir stofnun félagsins og hefur hann síðan verið nýttur sem gönguskáli. Nú sem fyrr var mikið um að vera í Baugaseli og er áætlð að um 80 manns hafi verið þar á Jónsmessuvöku. Vegna afmælisins var dagskráin öllu veglegri en áður. Menn brugðu á leik, meðal annars í leiknum "Jósep segir", sem hefur verið fastur liður á Jónsmessuvökunum. Gylfi Jónsson, Valur Daníelsson og Skúli Gautason spiluðu undir almennum marsi og sungnir voru þekktir almennir söngvar. Fluttar voru vísur og Ívar Ólafsson las efni sem snertir Barkárdal. Menn nutu nestis og fengu heita súpu sem Skúli menningarfulltrúi lagaði.

 

Þátttakendur hittust við Bug í Hörgárdal klukkan 20,30  og samenuðust þar í jeppa til ferðar fram að Baugaseli. Þaðan er um 7 kílómetra jeppavegur fram að Baugaseli. Nokkrir hestamenn fóru ríðandi frameftir. Þess má geta að í sumar er fyrirhugað að erlendir sjálfboðaliðar komi til að vinna að lagfæringum og endurbótum á bænum..

       BEG
    
    14. júní 2011

  12. júní var ráðgerð ferð á Halllok í Drangafjalli í samvinnu við Ferðafélag Akureyrar. Átta manns mættu þrátt fyrir þoku niður í miðjar fjallshlíðar. Ekki fannst mönnum taka því að fara alla leið upp og var gengið upp undir þokuna og Einbúaskál, Einbúi og Draugadalur skoðuð. Voru menn vel sáttir við þessa ferð, en í upphafi var Jónasarsýningin í Hrauni skoðuð.

  Frétt og mynd af gönguhópnum Bjarni E Guðleifsson.

    29. apríl 2011

  Í kvöld var aðalfundur Ferðafélagsins Hörgs, haldinn að Möðruvöllum 3 á heimili formannsins Bjarna E Guðleifssonar og konu hans Pálínu Jóhannesdóttur. Þetta var hin ágætasta kvöldstund enda alltaf gaman að koma til þeirra heiðurshjónanna. Það var margt rætt um starfssemi Hörgs, bæði um ferðalög og viðhald bæjarins í Baugaseli, sem félagið byggði upp á sínum fyrstu árum. Félagið var stofnað í Baugaseli á Jónsmessunótt 23. júní 1981 og verður því 30 ára í sumar.
  Starfsskýrslu formanns fyrir árið 2010 má lesa hér. 
  Á fundinum í kvöld var formlega opnuð heimasíða Ferðafélagsins Hörgs. Á stjórnarfundi í félaginu þann 14. febrúar sl. var Guðmundi Skúlasyni, falið að setja upp heimasíðu fyrir félagið og í kvöld kynnti hann heimasíðuna fyrir fundarfólkinu. Ánægja var með hvernig til hefur tekist og var Guðmundi þakkað fyrir verkið í lok kynningarinnar með lófaklappi. 
  Þótt síðan hafi nú verið opnuð fyrir almenning verður hún áfram í þróun og inn á hana kemur svo umfjöllun um það sem er á döfinni hjá félaginu og fréttir af viðburðum þess á hverjum tíma.
  Að fundinum loknum þáði fundarfólkið svo veitingar hjá húsráðendum. 
Í stofunni á Möðruvöllum
Fundarfólkið: Guðmundur, Sigrún, Pálína, Sigurður, Erla, Gestur og Bjarni E.
    GTS


    21. apríl 2011
    Sumardagurinn fyrsti

Það voru 11 manns sem tóku þátt í árlegri göngu á sumardaginn fyrsta í Baugasel. Þar munaði mest um fjölskyldu Péturs Halldórssonar Útvarpsmanns, en yngsti fjölskyldumeðlimurinn var sjö ára. Veðrið var ágætt, bjart og sunnan strekkingur til að byrja með, en á bakaleiðinni var kominn norðan andvari. Bærinn í Baugaseli hefur nokkuð látið á sjá og þarfnast umhyggju.
    BEG
Hér má sjá örfáar myndir frá Baugaselsferðinni í dag.
    
    4. apríl 2011

Bjarni E, Gestur og Guðmundur
  Í kvöld kom stjórn Hörgs, saman til fundar á Staðarbakka.
  Aðalmál fundarins var að fara yfir það sem komið er af heimasíðu fyrir félagið, sem Guðmundur hefur unnið að frá síðasta stjórnarfundi. Ánægja var með það sem komið er og var Guðmundi falið að þróa heimasíðuna áfram.
  Ákveðið var að halda aðalfund félagsins þann 29. apríl nk. á heimili formanns að Möðruvöllum þrjú.
  Fundargerðina má sjá hér  


  Á myndinni er stjórn Hörgs: Bjarni E Guðleifsson formaður, Gestur Hauksson gjaldkeri og Guðmundur Skúlason ritari.
    GTS

    14. febrúar 2011

  Í kvöld kom stjórn Hörgs saman til fundar á heimili formanns að Möðruvöllum 3 í Hörgársveit. Á fundinum var meðal annars, Guðmundi Skúlasyni falið að setja upp heimasíðu fyrir félagið. 
  Fundargerðina má sjá hér

Hér má svo sjá Guðmund nokkru síðar, þar sem hann
er að vinna að gerð heimasíðunnar.
Guðmundur Skúlason

    GTS
Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 24
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 234490
Samtals gestir: 55581
Tölur uppfærðar: 18.2.2020 15:06:56