Ferðafélagið Hörgur heimasíða

 
 
 
clockhere

Nafn:

Ferðafélagið Hörgur

Farsími:

6907792 Gestur Hauksson umsjónarmaður Baugasels

Afmælisdagur:

Stofnað 23. júní 1981

Heimilisfang:

Laugaland 601 Akureyri

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

Formanns 5885368 / 8972888

Um:

Vefstjóri heimasíðunnar er: Guðmundur Skúlason sími 8461589

Kennitala:

621295-2769

Bankanúmer:

1187-26-3773

Tenglar

 

Árið 2011

    Starfsskýrsla formanns fyrir árið 2011

Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 29. apríl. Stjórn félagsins er óbreytt frá því sem verið hefur undanfarið, Bjarni E. Guðleifsson er formaður, Guðmundur Skúlason ritari og Gestur Hauksson er gjaldkeri. Á aðalfundinum voru kynnt drög að dagskrá ársins 2011. Hún gekk að mestu eftir og var sennilega viðameiri en áður.

Á sumardaginn fyrsta, 21. apríl, var árleg gönguferð í Baugasel með 11 þátttakendum. Á Fífilbrekkuhátíð að Hrauni í Öxnadal þann 12. júní var hugmyndin að ganga á Halllok norðan Hraundranga. Sú ganga var í samvinnu við Menningarfélagið Hraun í Öxnadal og Ferðafélag Akureyrar.  Mættir voru 11 göngumenn. Vegna þoku var aðeins gengið um rætur fjallsins, Einbúaskál og Draugadal, en ekki þótti taka því að fara á sjálft fjallið. Þá mættu 28 manns í árlega sólstöðugöngu á Staðarhnjúk í Möðruvallafjalli 21. júní. Svo sem fyrr var árleg Jónsmessuvaka í Baugaseli 23. júní og þar munu hafa mætt um 80 manns.  Í tilefni af útkomu bókarinnar Svarfaðardalsfjöll eftir formann Hörgs var efnt til göngu á tinda sem lýst er í bókinni. Gengu 9 manns á Blástakk og Blekkil í yndislegu veðri. Útsýni var stórkostlegt en það kom á óvart hve mikill snjór var í öllum fjöllum þarna uppi. Allir göngumennirnir blotnuðu og lentu sumir jafnvel í nokkurri hættu við að fara yfir Féeggjará á heimleiðinni. Þá var komið að afmælisgöngu Hörgs í tilefni af 30 ára afmæli félagsins. Hugmyndin var að endurtaka fyrstu göngu Hörgs en þá var gengið á Flöguselshnjúk í Hörgárdal 11. júlí 1981. Þá voru þátttakendur 13. Það kom formanninum algerlega á óvart að í þessa talsvert erfiðu göngu komu 48 manns. Vegna þess að jeppaslóðin fram Hörgárdal hefur versnað var ekki hægt að aka eins langt og gert var 1981. Því var uppganga reynd á öðrum stað og lentu menn í nokkrum erfiðleikum upp brattar skriður. Allir komust þó klakklaust og niðurgangan á öðrum stað reyndist auðveld. Veður var mjög gott og útsýni stórkostlegt. Næst voru á dagskrá vatnagöngur í Svarfaðardal þar sem gengið var að fjórum vötnum. Þann 3.ágúst gengu 16 manns að Skriðukotsvatni í Skíðadal og daginn eftir, 4. ágúst gengu 4 að Gloppuvatni í Skíðadal. Gloppuvatn er eitt þeirra vatna á Tröllaskaga sem hefur hvað fegursta umgerð. Vegna rigningar féll ganga að Nikurtjörn niður en 6. ágúst gengu 6 manns að Skeiðsvatni í Vatnsdal.

Fyrirferðamest í starfsemi félagsins á árinu 2011 er án efa tiltekt og lagfæring á bænum í Baugaseli. Við tókum á móti 12 erlendum sjálfboðaliðum úr samtökunum SEEDS og unnu þeir í 10 daga að lagfæringum á bænum í samvinnu við Ferðafélagið Hörg. Gestur Hauksson gjalkeri og Bjarni E. Guðleifsson formaður stýrðu verkinu og má segja að mikið hafi áunnist. Rusl var fjarlægt, bærinn málaður að utan og grafin að hluta upp tóft fjóssins sem var fallið. Kom þá í ljós gamli flórinn sem þarna var falinn undir mold, grjóti og járni úr samanföllnu fjósþakinu. Erlendu sjálfboðaliðarnir voru flestir á þrítugsaldri, duglegir og víluðu ekki fyrir sér að vinna óþrifaverk, og dáðust þeir mikið að íslenskri náttúru. Þeir gistu á samkomuhúsinu Melum og voru þeim styttar stundir með kvöldvökuefni, þeim var boðið í gönguferð um Hraun í Öxnadal auk þess sem þeir tóku þátt í að lagfæra Sauðaborgina á Vindheimum og aðstoðuðu við tiltekt eftir miðaldadaga á Gásum. Félagið þurfti að sjá fólkinu fyrir flutningi og mat og lögðu þar ýmsir til hjálp.

Formlegri dagskrá Hörgs árið 2011 lauk með viðamikilli 30 ára afmæliskvöldvöku að Melum 12. nóvember. Um 80 manns komu á kvöldvökuna. Þá var stiklað á sögu félagsins, rifjað upp myndband frá Jónsmessuvöku í Baugaseli 1991. Glerárdalshringsmenn sögðu frá sinni starfsemi, tvær ungar stúlkur léku á fiðlu og harmonikku, Ingimar Harðarson lék á harmonikku undir söng, Árni Þórisson skemmti með söng , Guðmundur Skúlason las ljóð og veitt var hátíðarkaffi. Loks var marserað um húsið. Í tilefni af 30 ára afmælinu gaf Ferðafélag Íslands Hörgi 100.000 kr. og Ferðafélag Akureyrar gaf 50.000 kr. og er þessum velunnurum þakkaður stuðningurinn á annasömu og kostnaðarsömu starfsári Hörgs.

Rétt er að benda á heimasíðu Ferðafélgsins Hörgs www.horgur.123.is en henni stjórnar ritari félagsins Guðmundur Skúlason. Þar er meðal annars að finna áætlun Hörgs fyrir árið 2012.

        Bjarni E Guðleifsson
Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 24
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 234490
Samtals gestir: 55581
Tölur uppfærðar: 18.2.2020 15:06:56