Ferðafélagið Hörgur heimasíða

 
 
 
clockhere

Nafn:

Ferðafélagið Hörgur

Farsími:

6907792 Gestur Hauksson umsjónarmaður Baugasels

Afmælisdagur:

Stofnað 23. júní 1981

Heimilisfang:

Laugaland 601 Akureyri

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

Formanns 5885368 / 8972888

Um:

Vefstjóri heimasíðunnar er: Guðmundur Skúlason sími 8461589

Kennitala:

621295-2769

Bankanúmer:

1187-26-3773

Tenglar

 

Gerðabók Hörgs 2012

    Stjórnarfundur 19. mars 2012

Mánudagskvöldið 19. mars 2012 kom stjórn Ferðafélagsins Hörgs saman til fundar á Staðarbakka.

Allir stjórnarmenn mættir: Bjarni E Guðleifsson, Gestur Hauksson og Guðmundur Skúlason.

Tilefni fundarins var einkum að ræða um og skipuleggja aðalfund félagsins. Ákveðið var að halda fundinn þann 27. mars nk. á Möðruvöllum 3 hjá Bjarna formanni. Auk venjubundinna aðalfundarstarfa var ákveðið að Guðmundur verði með myndasýningu á fundinum af sínum heimaslóðum.

Bjarni upplýsti á fundinum að þar sem hann hefði lokið sínu kjörtímabili í stjórn félagsins, hefði hann ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs.

 

            Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið.

 

            Guðmundur Skúlason

                  fundarritari.


    Aðalfundur 27. mars 2012

Þriðjudagskvöldið 27. mars 2012 var komið saman til aðalfundar Ferðafélagsins Hörgs að Möðruvöllum 3 kl. 20:30.

Bjarni E Guðleifsson formaður félagsins setti fund og bauð mætta félaga velkomna til fundarins. Alls voru 8 á fundinum.

Bjarni sagðist ætla að stjórna fundi sjálfur eins og venja hafi verið á aðalfundum og hann stakk upp á Guðmundi Skúlasyni ritara stjórnar sem fundarritara. Ekki komu fram aðrar uppástungur þannig að þessir skoðuðust rétt kjörnir.

            Var þá gengið til dagskrár:

  1. Bjarni flutti svofellda starfsskýrslu.

"Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 29. apríl. Stjórn félagsins er óbreytt frá því sem verið hefur undanfarið, Bjarni E. Guðleifsson er formaður, Guðmundur Skúlason ritari og Gestur Hauksson er gjaldkeri. Á aðalfundinum voru kynnt drög að dagskrá ársins 2011. Hún gekk að mestu eftir og var sennilega viðameiri en áður.

Á sumardaginn fyrsta, 21. apríl, var árleg gönguferð í Baugasel með 11 þátttakendum. Á Fífilbrekkuhátíð að Hrauni í Öxnadal þann 12. júní var hugmyndin að ganga á Halllok norðan Hraundranga. Sú ganga var í samvinnu við Menningarfélagið Hraun í Öxnadal og Ferðafélag Akureyrar.  Mættir voru 11 göngumenn. Vegna þoku var aðeins gengið um rætur fjallsins, Einbúaskál og Draugadal, en ekki þótti taka því að fara á sjálft fjallið. Þá mættu 28 manns í árlega sólstöðugöngu á Staðarhnjúk í Möðruvallafjalli 21. júní. Svo sem fyrr var árleg Jónsmessuvaka í Baugaseli 23. júní og þar munu hafa mætt um 80 manns.  Í tilefni af útkomu bókarinnar Svarfaðardalsfjöll eftir formann Hörgs var efnt til göngu á tinda sem lýst er í bókinni. Gengu 9 manns á Blástakk og Blekkil í yndislegu veðri. Útsýni var stórkostlegt en það kom á óvart hve mikill snjór var í öllum fjöllum þarna uppi. Allir göngumennirnir blotnuðu og lentu sumir jafnvel í nokkurri hættu við að fara yfir Féeggjará á heimleiðinni. Þá var komið að afmælisgöngu Hörgs í tilefni af 30 ára afmæli félagsins. Hugmyndin var að endurtaka fyrstu göngu Hörgs en þá var gengið á Flöguselshnjúk í Hörgárdal 11. júlí 1981. Þá voru þátttakendur 13. Það kom formanninum algerlega á óvart að í þessa talsvert erfiðu göngu komu 48 manns. Vegna þess að jeppaslóðin fram Hörgárdal hefur versnað var ekki hægt að aka eins langt og gert var 1981. Því var uppganga reynd á öðrum stað og lentu menn í nokkrum erfiðleikum upp brattar skriður. Allir komust þó klakklaust og niðurgangan á öðrum stað reyndist auðveld. Veður var mjög gott og útsýni stórkostlegt. Næst voru á dagskrá vatnagöngur í Svarfaðardal þar sem gengið var að fjórum vötnum. Þann 3.ágúst gengu 16 manns að Skriðukotsvatni í Skíðadal og daginn eftir, 4. ágúst gengu 4 að Gloppuvatni í Skíðadal. Gloppuvatn er eitt þeirra vatna á Tröllaskaga sem hefur hvað fegursta umgerð. Vegna rigningar féll ganga að Nikurtjörn niður en 6. ágúst gengu 6 manns að Skeiðsvatni í Vatnsdal.

Fyrirferðamest í starfsemi félagsins á árinu 2011 er án efa tiltekt og lagfæring á bænum í Baugaseli. Við tókum á móti 12 erlendum sjálfboðaliðum úr samtökunum SEEDS og unnu þeir í 10 daga að lagfæringum á bænum í samvinnu við Ferðafélagið Hörg. Gestur Hauksson gjalkeri og Bjarni E. Guðleifsson formaður stýrðu verkinu og má segja að mikið hafi áunnist. Rusl var fjarlægt, bærinn málaður að utan og grafin að hluta upp tóft fjóssins sem var fallið. Kom þá í ljós gamli flórinn sem þarna var falinn undir mold, grjóti og járni úr samanföllnu fjósþakinu. Erlendu sjálfboðaliðarnir voru flestir á þrítugsaldri, duglegir og víluðu ekki fyrir sér að vinna óþrifaverk, og dáðust þeir mikið að íslenskri náttúru. Þeir gistu á samkomuhúsinu Melum og voru þeim styttar stundir með kvöldvökuefni, þeim var boðið í gönguferð um Hraun í Öxnadal auk þess sem þeir tóku þátt í að lagfæra Sauðaborgina á Vindheimum og aðstoðuðu við tiltekt eftir miðaldadaga á Gásum. Félagið þurfti að sjá fólkinu fyrir flutningi og mat og lögðu þar ýmsir til hjálp.

Formlegri dagskrá Hörgs árið 2011 lauk með viðamikilli 30 ára afmæliskvöldvöku að Melum 12. nóvember. Um 80 manns komu á kvöldvökuna. Þá var stiklað á sögu félagsins, rifjað upp myndband frá Jónsmessuvöku í Baugaseli 1991. Glerárdalshringsmenn sögðu frá sinni starfsemi, tvær ungar stúlkur léku á fiðlu og harmonikku, Ingimar Harðarson lék á harmonikku undir söng, Árni Þórisson skemmti með söng , Guðmundur Skúlason las ljóð og veitt var hátíðarkaffi. Loks var marserað um húsið. Í tilefni af 30 ára afmælinu gaf Ferðafélag Íslands Hörgi 100.000 kr. og Ferðafélag Akureyrar gaf 50.000 kr. og er þessum velunnurum þakkaður stuðningurinn á annasömu og kostnaðarsömu starfsári Hörgs.

Rétt er að benda á heimasíðu Ferðafélgsins Hörgs www.horgur.123.is en henni stjórnar ritari félagsins Guðmundur Skúlason. Þar er meðal annars að finna áætlun Hörgs fyrir árið 2012."

Talsverða umræður urðu í framhaldi af skýrslunni, bæði um ferðir á vegum félagsins og um viðhald og endurbætur á bænum í Baugaseli. Hugmynd kom fram um að setja á fót nefnd á vegum félagsins til að annast og skipuleggja framkvæmdir í Baugaseli.

  1. Gestur Hauksson gjaldkeri félagsins, gerði grein fyrir ársreikningi félagsins fyrir árið 2011. Þar kom fram að heildartekjur ársins voru krónur 275.659 en gjöldin voru upp á krónur 572.750. Það var því rekstrartap upp á 297.091 krónu. Ástæður tapsins má einkum rekja til kostnaðar við endurbætur í Baugaseli og afmæliskvöldvökunnar á Melum þann 12. nóvember. Kostnaðurinn við þetta tvennt var röskar 350.000- kr.   Hrein eign félagsins þann 31. 12. 2011 var krónur 424.608. Nokkrar fyrirspurnir voru gerðar er varðaði reikninginn, sem gjaldkeri svaraði greiðlega. Að því búnu var reikningurinn borinn undir fundarmenn, sem samþykktu hann með öllum greiddum atkvæðum.
  2. Bjarni formaður bauð nú upp á kaffiveitingar.
  3. Kosningar: Kjósa þurfti 1 mann í stjórn í stað Bjarna E Guðleifssonar til þriggja ára. Bjarni lýsti því yfir að hann ætlaði nú að draga sig í hlé frá stjórnarstörfum eftir að hafa verið formaður félagsins frá stofnun þess 1981. Í stað Bjarna var Arnar Pálsson kjörinn í stjórnina. Þá voru Erla Friðfinnsdóttir og Aðalsteinn Hreinsson endurkjörin í varastjórn.
  4. Guðmundur Skúlason sýndi myndir af skjávarpa frá sínum heimaslóðum. Mátti þar sjá fjölla og foss, auk ýmissa fyribæra í náttúrunni og úr búskapnum. Mæltist þessi nýbreytni á aðalfundi nokkuð vel fyrir.

 

Þegar fundarstjóri sleit fundi, sagðist fundarritari ætla að færa til bókar nokkur þakklætis orð til Bjarna fyrir langt og farsælt starf sem formaður félagsins.

Það er mér bæði ljúft og skylt að þakka Bjarna fyrir þessa 30 ára samveru okkar í stjórn Ferðafélagsins Hörgs og að þakka honum fyrir allt það sem hann hefur verið þessu félagi. Hann hefur verið hinn innsti lífsneisti þess og einnig sverð þess og skjöldur. Án Bjarna hefði Hörgur aldrei orðið til og mér er alveg til efs að án hans hefði félagið lifað í þessa þrjá áratugi. Bjarni stígur nú út á hliðarlínuna í félagsstarfinu, en hann ætlar áfram að leggja félaginu lið eftir því sem efni gefast til og er það vel.

Ég vil svo enda þetta með því að bjóða Arnar innilega velkominn til stjórnunarstarfa fyrir Hörg og óska honum alls hins besta og velfarnaðar í því starfi.

 

            Fleira ekki fært til bókar.

            Guðmundur Skúlason

                   fundarritari.


    Stjórnarfundur 27. mars 2012

Að afloknum aðalfundi Ferðafélagsins Hörgs þann 27. mars 2012 kom stjórn félagsins saman til stutts fundar og skipti með sér verkum, þannig að: Arnar Pálsson er formaður, Gestur Hauksson gjaldkeri og Guðmundur Skúlason ritari.

Ákveðið var að halda stjórnarfund á Staðarbakka mánudagskvöldið 2. apríl nk.

 

            Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið.

                        Guðmundur Skúlason

                                fundarritari.

    Stjórnarfundur 2. apríl 2012

Mánudagskvöldið 2. apríl 2012 kom stjórn Ferðafélagsins Hörgs saman til fundar á Staðarbakka. Allir stjórnarmenn mættir: Arnar Pálsson, Gestur Hauksson og Guðmundur Skúlason.

            Eftirfarandi fært til bókar:

  1. Skoðaðar gamlar myndi sem tengjast atburðum úr sögu félagsins. Margar þessara mynda hafa sögulegt gildi þannig að það væri æskilegt, þegar tími gefst til að koma þeim inn á heimasíðu félagsins.
  2. Gengið var frá ferðaáætlun félagsins fyrir komandi sumar. Áætlunin hefur um nokkurt skeið verið aðgengileg á heimasíðunni. En nú var bætt einni ferð við, er það ferð um Reistarárskarð yfir í Þorvaldsdal þann 25. ágúst. Þetta á að vera tiltölulega auðveld ganga, sem flestir ættu að geta farið.
  3. Gesti falið að sækja um styrk til Norðurorku, sem auglýsir um þessar mundir styrkveitingar til samfélagverkefna. Styrknum ef hann fæst yrði ráðstafað til uppbyggingar í Baugaseli.
  4. Í framhaldi af umræðum á aðalfundinum þann 27. mars sl. um skipan nefndar til að sjá um verkefni sem tengjast Baugaseli, ákveður stjórnin að skipa í þessa nefnd þannig: Bjarni E Guðleifsson, Jósavin Arason og Gestur Hauksson.
  5. Rætt um auglýsingar og kostnað við þær. Arnari falið að sjá um að auglýsa viðburði á vegum félagsins og reyna að ná niður kostnaði við þær.

             Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið.

                 Guðmundur Skúlason

                      fundarritari

Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 24
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 234490
Samtals gestir: 55581
Tölur uppfærðar: 18.2.2020 15:06:56