Ferðafélagið Hörgur heimasíða

 
 
 
clockhere

Nafn:

Ferðafélagið Hörgur

Farsími:

6907792 Gestur Hauksson umsjónarmaður Baugasels

Afmælisdagur:

Stofnað 23. júní 1981

Heimilisfang:

Laugaland 601 Akureyri

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

Formanns 5885368 / 8972888

Um:

Vefstjóri heimasíðunnar er: Guðmundur Skúlason sími 8461589

Kennitala:

621295-2769

Bankanúmer:

1187-26-3773

Tenglar

 

Gerðabók Hörgs 2013

 

Stjórn Ferðafélagsins Hörgs kom saman til fundar á Laugalandi á Þelamörk, þann 20. apríl 2013.

            Eftirfarandi bókað:

  1. Formaður er búinn að gera ferðaáætlun félagsins fyrir árið 2013. Hún er nú þegar aðgengileg á heimasíðu félagsins og verður því ekki raki hér.
  2. Ákveðið að halda aðalfund félagsins í Leikhúsinu á Möðruvöllum þriðjudagskvöldið 23. apríl nk.
  3. Formaður lagði fram starfsskýrslu sína yfir félagsstarfið frá síðasta aðalfundi og verður hún flutt á aðalfundinum.

                        Fleira ekki bókað.

                        Guðm. Skúlason

                        fundarritari

 

Þriðjudagskvöldið 23. apríl 2013 var komið saman til aðalfundar Ferðafélagsins Hörgs í Leikhúsinu á Möðruvöllum kl. 20:30.

Arnar Pálsson formaður félagsins setti fund og bauð mætta velkomna til fundarins. Alls voru 11 á fundinum.

Formaður sagðist ætla að stjórna fundi sjálfur eins og venja hafi verið á aðalfundum og hann stakk upp á Guðmundi Skúlasyni ritara stjórnar sem fundarritara. Ekki komu fram aðrar uppástungur þannig að þessir skoðuðust rétt kjörnir.

            Var þá gengið til dagskrár:

    1.    Starfsskýrsla formanns fyrir árið 2012

Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 27. mars 2012. Bjarni Guðleifsson flutti starfsskýrslu ársins 2011 og Gestur Hauksson fór yfir ársreikninga. Þau tímamót urðu að Bjarni dró sig í hlé frá stjórnarstörfum en hann hafði starfað sem formaður félagsins í 30 ár eða allt frá stofnun þess og var hann gerður að heiðursfélaga í Hörgi. Ég kom inn í stjórnina í hans stað, að öðru leyti er stjórnin óbreytt, Gestur er gjaldkeri og Guðmundur Skúlason ritari. Á fundinum lagði Bjarni til að stofnuð yrði Baugaselsnefnd sem annaðist og sæi um skipulag og framkvæmdir þar. Í lok aðalfundar sýndi Guðmundur Skúlason myndir á skjávarpa frá heimaslóðum sínum.

2. apríl 2012 var haldinn stjórnarfundur. Þá var ferðaáætlun staðfest og einni ferð bætt við áætlunina. Gamlar myndir voru skoðaðar úr gögnum frá Bjarna og Gesti falið að sækja um styrk til Norðurorku til uppbyggingar á Baugaseli. Í framhaldi af umræðu um Baugasel var ákveðið að skipa Gest Hauksson, Jósavin Arason og Bjarna Guðleifsson í Baugaselsnefnd.

Í apríl fór ég einnig á fund í Leikhúsinu á Möðruvöllum. Umræðuefnið var aðkoma félaganna á svæðinu að Sæludegi í sveitinni. Hörgur kemur ekki að neinum viðburðum að svo stöddu.

Sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl var farið í fyrstu göngu ársins. Gengið var frá Bugi að Baugaseli. Veður var gott. Í ferðinni voru 29 þátttakendur og 1 hundur, sá elsti sem gekk var 74 ára og sá yngsti 5 ára. Einn yngri var þó með í för en sá var í bakpoka.

Þann 3. maí vorum við Bjarni Guðleifsson boðaðir á fund með Páli Guðmundssyni framkvæmdastjóra FÍ ásamt fulltrúa frá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs. Þeir voru á leið hringinn í kringum landið til að reyna að auka samband milli félaga. Við Bjarni vorum einnig boðaðir á ráðstefnu í september ásamt fulltrúum allra ferðafélaganna. Ekkert var ákveðið á þessum fundi hvort eða með hvaða hætti Hörgur kæmi að þessu samstarfi. Hugmyndir voru um sameiginlegan starfsmann félaganna og sameiginleg bókunarkerfi fyrir skála.

Þann 9. júní var gengið á Halllok í Drangafjalli í samstarfi við Ferðafélag Akureyrar og Menningarfélagið Hraun í Öxnadal í tilefni af Fífilbrekkuhátíð. 11 manns lögðu af stað í fylgd Bjarna Guðleifssonar. Ekki var gengið alla leið á toppinn þar sem enn var skafl efst í fjallinu.

Þann 21. júní, á sumarsólstöðum, var gengið á Staðarhnjúk á 70 ára afmælisdegi Bjarna Guðleifssonar. Mætt var við Möðruvelli kl. 20.00 og lögðu 56 af stað í gönguna en 52 fóru alla leið á toppinn. Tveir hundar voru einnig með í för. Veður var gott, logn og heiðskírt. Ég tel óhætt að fullyrða að aldrei hafi fleiri tekið þátt í sólstöðugöngu félagsins. Bjarni Guðleifsson var gerður að heiðursfélaga í Hörgi. Á Jónsmessu var svo haldin árleg Jónsmessuvaka í Baugaseli. Alls mættu 32 á vökuna og var veður gott. Ýmislegt var á dagskrá, farið var yfir atburði frá stofnfundi Hörgs  árið1981, vísnagátur voru lagðar fyrir fólk og Ari Friðfinnsson fór með vísur. Einnig voru fastir liðir eins og Jósep segir og svo  stjórnaði Jósavin Arason fjöldasöng og dansi.

Þann 21. júlí var fyrirhuguð barnagönguferðin Hvað er bakvið fjallið? Aðeins mættum við Bjarni í þessa ferð og endaði hún þar með í kaffi hjá Pálínu. Veður var lágskýjað, 13°C og innlögn.

Í ágúst var áætlað að ganga að þremur vötnum. Þann 10. var gengið að Nykurtjörn í Svarfaðardal. Fjórir fóru í þessa ferð auk Bjarna Guðleifssonar sem sá um leiðsögn. Veður var þokkalegt en það rigndi með köflum. Lagt var af stað frá Steindyrum og gengin stikuð leið alls rúmlega 9 km. 11. ágúst var fyrirhugað að ganga að Burstabrekkuvatni í Ólafsfirði. Ég var sá eini sem mætti í mjög góðu veðri, það var logn og um 20°C. Ég fór því ekki að vatninu heldur í afmæli til Láka. Síðasta ganga sumarsins var síðan fyrirhuguð þann 12. ágúst og var það barnagönguferðin Hvar er vatnið? en ganga átti að Hraunsvatni í Öxnadal. Ég var sá eini sem mætti í ferðina og sneri því aftur heim. Veður var mjög gott, hiti 21°C og sunnan andvari.

Þann 25. ágúst var gengið um Reistarárskarð, gegnum Mjóadal yfir í Þorvaldsdal. Lágskýjað var enn ágætis veður. Fjórir fóru í þessa ferð.

Áætlun fyrir sumarið 2013 var gerð í nóvember síðastliðnum og henni skilað til Ferðafélags Íslands sem gefur hana út og setur hana á netið. Einnig fékk ég senda fyrirspurn sl. haust frá Akureyrarstofu um það hvort Hörgur stæði fyrir gönguviku eins og undanfarin ár og verður gönguvika félagsins (í ágúst) auglýst hjá þeim.

Að lokum vil ég minna á heimasíðu Ferðafélagsins Hörgs www.horgur.123.is en henni stjórnar ritari félagsins Guðmundur Skúlason. Þar er meðal annars að finna áætlun Hörgs fyrir árið 2013.

                             Arnar Pálsson

  1. Gestur Hauksson gjaldkeri félagsins, gerði grein fyrir ársreikningi félagsins fyrir árið 2012. Þar kom fram að heildartekjur ársins voru krónur 163.952 en gjöldin voru upp á krónur 122.815, hagnaður á árinu var því 41.137 krónu.  Hrein eign félagsins þann 31. 12. 2012 var krónur 465.745. Reikningurinn borinn undir fundarmenn, sem samþykktu hann með öllum greiddum atkvæðum.
  1. Bjarni Guðleifsson ræddi um endurbætur á bænum í Baugseli. Talsverðar umræður urðu í framhaldinu og voru fundarmenn sammála um að það þyrfti að lagfæra eða endurhlaða veggi, sem eru farnir að láta á sjá í bænum.
  1. Formaður fór yfir ferðaáætlun sumarsins. Undirtektir við hana voru góðar. Ferðaáætlunin er aðgengileg á heimasíðu félagsins.
  1. Kosningar: Kjósa þurfti 1 mann í stjórn í stað Gests Haukssonar til þriggja ára, var hann endurkjörinn með lófaklappi. Einnig voru Erla Friðfinnsdóttir og Aðalsteinn Hreinsson endurkjörin í varastjórn til eins árs og Þóroddur Sveinsson var endurkjörinn skoðunarmaður reikninga félagsins til þriggja ára.
  1. Tillaga kom fram um að hækka árgjald félagsmanna úr 1.200 kr. í 1.500 og var hún samþykkt.

            Fleira ekki fært til bókar.

                        Guðmundur Skúlason

                              fundarritari

 

 

Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 24
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 234490
Samtals gestir: 55581
Tölur uppfærðar: 18.2.2020 15:06:56