Ferðafélagið Hörgur heimasíða

 
 
 
clockhere

Nafn:

Ferðafélagið Hörgur

Farsími:

6907792 Gestur Hauksson umsjónarmaður Baugasels

Afmælisdagur:

Stofnað 23. júní 1981

Heimilisfang:

Laugaland 601 Akureyri

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

Formanns 5885368 / 8972888

Um:

Vefstjóri heimasíðunnar er: Guðmundur Skúlason sími 8461589

Kennitala:

621295-2769

Bankanúmer:

1187-26-3773

Tenglar

 

Gerðabók Hörgs 2014

   

Þann 12. ágúst 2014 var komið saman í Leikhúsinu á Möðruvöllum til aðalfundar Ferðafélagsins Hörgs

Gestur Hauksson setti fundinn  og bauð fundarmenn velkomna í fjarveru formanns Arnars Pálssonar, sem staddur er í Noregi vegna vinnu sinnar. Á fundinn eru mættir 6 félagar.

 1. Gestur stakk upp á Bjarna Guðleifssyni sem fundarstjóra og Guðmundi Skúlasyni sem fundarritara og var það samþykkt.

Gestur las nú svohljóðandi skýrslu formanns.

Ferðafélagsins Hörgs 2013

Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn þann 23. apríl 2013 í Leikhúsinu á Möðruvöllum. Gestur Hauksson var endurkjörinn í stjórn félagsins. Stjórnin er óbreytt frá fyrra ári; Arnar Pálsson er formaður, Guðmundur Skúlason ritari og Gestur Hauksson gjaldkeri. Á fundinum voru kynnt drög að ferðaáætlun ársins 2013.

 

Gönguferðir 2013

Þann 25. apríl, sumardaginn fyrsta, gengu 10 manns á gönguskíðum upp í Baugasel í góðu veðri og reyndist hitastigið vera um og yfir frostmark. Þegar í Baugasel var komið lét sólin sjá sig og ferðamenn drukku kakó og borðuðu nesti í blíðunni.

25 manns gengu frá Hrauni þann 16. júní upp að Hraunsvatni í blíðskaparveðri í tengslum við Fífilbrekkuhátíðina sem haldin er að Hrauni. Gengin var stikuð leið sem liggur frá Hrauni, að Hraunsvatni og aftur að Hrauni. Tók gangan um 4 tíma. Þetta er mjög falleg leið, fólk er vanara að ganga frá Hálsi en það má hiklaust mæla með þessari leið. Reyndar er svolítið erfitt færi yfir hraunið á leiðinni til baka, en þar mun líklega myndast slóð með tímanum.

Þann 23. júní var haldin árleg Jónsmessuvaka í Baugaseli. 32 voru mættir til leiks, voru þar lesnar vísnagátur, farið var í leiki, sungið og spjallað. Veður var með eindæmum gott, stillt og 12° C hiti. 

Gönguferð á Kistu og Strýtu, sem fara átti laugardaginn 20. júlí  var frestað og var hún sett í ferðaáætlun Hörgs 2014.

Þann 14. ágúst gengu 7 manns frá Steinsstöðum að fossinum Gljúfrabúa. Gengið var að gljúfrinu þar sem það er dýpst og áfram upp með gilinu. Stefnan var tekin á Jónasarlund, farið suður fjallið að merkjum Steinsstaða og Þverár, inn í lundinn að sunnan og gegnum hann. Síðan var gengið að bílunum aftur eftir gamla veginum. Í fjallinu var talsvert mikið að berjum sem göngufólk gæddi sér á. Veður var frábært, sunnangola við upphaf ferðar en lægði fljótt og var logn í lundinum, skýjað og 18 gráðu hiti.

15. ágúst var gengið í Hraunshöfðaskál  í  Öxnadal, 10 manns mættu í ferðina. Það var skýjað, hiti 16 gráður og logn, suddi á leiðinni niður og mikið tínt af berjum. Gönguhópurinn var ekki að flýta sér, setið var lengi í skálinni og útsýnisins notið.        

16. ágúst gengu sex manns í Heljarskál. Gengið var frá Miðlandi í hægviðri, skýjað var og hiti 12 gráður. Ferðin tók 5 tíma og var farið upp í jökulrætur í botni skálarinnar. Úði á leiðinni niður og þegar niður var komið var komin þoka í skálina.

Dagsferð til Siglufjarðar sem átti að vera þann 17. ágúst var aflýst vegna þátttökuleysis, en einn skráði sig í þessa ferð.

 

Umræður um skýrsluna og fleira sem varðar félagið. Rætt um bæinn í Baugaseli, sem er orðinn þannig farinn að það þarf að fara að lagfæra hann. Ákveðið var að framlengja umboð nefndarinnar sem kjörin var 2012 til að annast endurbætur í Baugaseli. Jósavin Arason hafi formennsku nefndarinnar og Bjarni Guðleifsson og Gestur Hauksson verði með honum. Oddur Bjarni nýr prestur á Möðruvöllum mætti nú á fundinn. Hann er lærður hleðslumaður og var ákveðið að fá hann til að fara með nefndinni í Baugasel, síðustu helgina í ágúst til að meta ástand bæjarins og gera drög að því hvernig best er að standa að endurbótunum. Oddur Bjarni lét svo skrá sig og konu sína Margréti í félagið.

 

 1. Gestur Hauksson gjaldkeri las reikning félagsins fyrir árið 2013. Niðurstaða rekstrarreiknings er 157.027 kr. og rekstrarhagnaður var 34.806 kr. Niðurstaða efnahagsreiknings 537.507 kr. Lítilsháttar umræður og fundarmenn sáttir við reikninginn. Reikningarnir samþykktir samhljóða.

 

 1. Kosningar: Guðmundur Skúlason gefur ekki kost á sér til endur- kjörs. Uppástunga kom um Jósavin Arason í stjórn félagsins til næstu þriggja ára og var það samþykkt. Erla Friðfinnsdóttir og Aðalsteinn Hreinsson endurkjörin í varastjórn til eins árs.

 

 1. Önnur mál
  • Gestur lagði til að árgjald verði sama áfram 1.500 kr. Það var samþykkt.
  • Ákveðið að stjórn skipi í árshátíðarnefnd.
  • Jósavin lagði til að snyrt væri í kringum bæinn í Baugaseli fyrir Jónsmessuhátíðina.
  • Guðmundi voru þökkuð störf hans í þágu Hörgs, en hann er búinn að vera í stjórn frá stofnun félagsins, að undan skildu einu ári.
  •  
  • Að svo búnu þakkaði fundarstjóri fyrir góðan fund og óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar og sleit fundi.

Guðmundur Skúlason fundarritari.

 Skrifaðu þinn texta hér.

Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 24
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 234490
Samtals gestir: 55581
Tölur uppfærðar: 18.2.2020 15:06:56